Viðskipti innlent

Handbært fé ríkissjóðs minnkar um meir en helming

Samkvæmt greiðsluuppgjöri ríkisins fyrstu níu mánuði ársins er handbært fé frá rekstri 19,2 milljarðar kr. innan ársins samanborið við 48,6 milljarða kr. á sama tímabili í fyrra.

Innheimtar tekjur voru 11,6 milljarða kr. hærri en á árinu 2007 en gjöldin voru 49,9 milljarða kr. hærri nú en í fyrra. Hreinn lánsfjárjöfnuður er jákvæður um 27,7 milljarðar kr. sem er 45,6 milljarða kr. betri útkoma en í fyrra.

Innheimtar tekjur ríkissjóðs námu 332 milljarða kr. á fyrstu níu mánuðum ársins sem er 3,6% aukning að nafnvirði. Skatttekjur og tryggingagjöld námu 302 milljarða kr. sem samsvarar 3,6% aukningu að nafnvirði á milli ára.

Frá ársbyrjun hafa veltuskattar skilað ríkissjóði 141 milljarða kr. og dregist lítillega saman að nafnvirði frá sama tíma árið áður. Þegar horft er á 6 mánaða hlaupandi meðaltal nemur raunlækkun veltuskatta nú 15,8% á milli ára sem er mesta raunlækkun um árabil. Þetta er enn ein vísbending um að dregið hefur verulega úr umsvifum í hagkerfinu.

Greidd gjöld nema 318,6 milljörðum kr. Mest aukning er vegna almannatrygginga- og velferðarmála, 14,3 milljarða kr. Þar munar mest um lífeyristryggingar sem hækka um 9 milljarða kr. á milli ára, fæðingarorlofsgreiðslur um 1,2 milljarða kr. og vaxtabætur um 1,4 milljarða kr.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×