Viðskipti innlent

Samson synjað um áframhaldandi greiðslustöðvun

Eignarhaldsfélaginu Samson var synjað um áframhaldandi greiðslustöðvun í héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þýski bankinn Commerzbank hafði farið fram á synjunina.

Í dóminum segir að Samson hafi krafist áframhaldandi greiðslustöðvunnar þar sem mikil óvissa ríkir um verðmæti rúmlega 40% eignarhlutar í Landsbankanum hf.. Því ríki mikil óvissa um raunverulega stöðu Samson þar til virði eignarhlutarins er kominn á hreint.

Rök Commerzbank gegn áframhaldandi greiðslustðvun voru m.a. þau að Samson sé sýnilega orðið skylt að krefjast gjaldþrotaskipta samkvæmt lögum.

Byggir álit Commerzbank á því að fyrrgreindur hlutur í Landsbankanum sé einskis virði. Og þótt hluturinn hafi ekki fallið nema um 70-80% sé Samson ómögulegt að standa í skilum við lánadrottna sína. Hluturinn í Landsbankanum var langstærsta eign Samson.

Commerzbank vitnaði til samtals við Björgólf Guðmundsson í Morgunblaðinu í lok október þar sem hann taldi bréf Samson í Landsbankanum orðin verðlaus.

Kröfur Commerzbank á hendur Samson eru tveir lánasamningar, annar upp á tæplega 7,8 milljarða kr. og hinn upp á rúmlega 15,5 milljarða kr.

Í dóminum segir: "Ekki sé þörf á að orðlengja frekar um þá staðreynd að ef eign Samson í Landsbanka Íslands hf. er einskis virði, eins og yfirgnæfandi líkur eru á, þá beri Samson að gefa up bú sitt til gjaldþrotaskipta."




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×