Viðskipti innlent

Sögulegur listi Frjálsrar verslunar yfir 300 stærstu

Frjáls verslun birtir í dag lista sinn yfir 300 stærstu fyrirtækin á Íslandi á síðasta ári. Segir í blaðinu að listann beri að skoða í sögulegu ljósi enda mörg af toppfélögunum á honum horfin eins og t.d. Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir sem skipa þrjú efstu sætin.

Listi tímaritsins sýnir hvernig efnahagslífið á Íslandi náði hæstu hæðum áður en bankakreppan skall á..."og vitnað verður í hann um ókomin ár í íslenskri hagsögu þegar rætt verður um útrás íslenskra fyrirtækja," eins og segir í tímaritinu.

Fyrir utan bankana þrjá er að finna fyrirtæki í topp 10 sætunum sem mikil óvissa ríkir um. Má þar m.a. nefna Eimskip sem er í 6. sæti en framtíð þess er óviss eftir að Björgólfsfeðgar misstu Landsbankann. Exista er í 8. sæti en það félag rær nú lífróður fyrir tilveru sinni. Og Baugur Group skipar 9. sæti en framtíð þess félags er óviss samanber umræðuna um söluna á skuldum þess.

Eina félagið á toppnum sem enn stendur sæmilega í kreppunni er Actavis sem skipar 5. sæti listans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×