Viðskipti innlent

Gengisfall krónunnar hefur hækkað verulega skuldir heimilanna

Skuldir heimila við innlánsstofnanir jukust um 23% frá áramótum til septemberloka, að mestu leyti vegna beinna og óbeinna áhrifa af gengisfalli krónunnar.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að alls voru skuldir heimilanna við banka og sparisjóði tæplega 1.030 milljarðar kr. í lok september samkvæmt nýlega birtum tölum Seðlabankans fyrir bankakerfið.

Þar af voru tæplega 277 milljarðar kr. í formi gengisbundinna lána og verðtryggð lán námu rúmum 625 milljörðum kr. Athygli vekur að á þriðja fjórðungi ársins hækkuðu skuldir heimila við innlánastofnanir um 8,4%, en á því tímabili var lítið um ný útlán til heimila og má gera ráð fyrir að þessi aukning sé að langstærstum hluta vegna áhrifa af gengisfalli krónu á höfuðstól gengistryggðra lána annars vegar, og verðbótaþáttar verðtryggðra lána hinsvegar.

Greining segir að aukin greiðslubyrði af skuldum er heimilunum verulegur fjötur um fót um þessar mundir, auk þess sem hækkandi höfuðstóll gengis- og verðtryggðra lána hefur rýrt eiginfjárstöðu margra verulega. Um mitt ár voru heildarskuldir íslenskra heimila við lánakerfið í heild, þ.e. alla lánveitendur í einkageira sem hinum opinbera, 1.760 milljarða kr. Um það bil þrír fjórðuhlutar þessara skulda voru verðtryggðir og í kring um 15% voru í formi gengistryggðra lána. Síðan þá hefur vísitala neysluverðs hækkað um tæplega 6% og gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart krónu hækkað um rúm 37%, ef miðað er við gengisvísitölu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×