Viðskipti innlent

Segir meir verið að bjarga Landsbankanum en Eimskip

Vilhjálmur Bjarnason viðskiptafræðingur segir að Björgólfsfeðgar hafi meir verið að bjarga Landsbankanum en Eimskip með því að kaupa 207 milljóna evra kröfuna á hendur XL Leisure Group.

„Þessi krafa hefði á endanum fallið á Landsbankann og örugglega valdið honum miklum erfiðleikum hvað varðar lánakjör á fjármálamörkuðum og fleira," segir Vilhjálmur.

Aðspurður um þær áætlanir að breyta kröfunni síðar í hlutafé segir Vilhjálmur að það skipti ekki svo ýkja miklu máli fyrir aðra en þá Björgólfsfeðga enda séu þeir hugsanlega komnir með mikinn meirihluta í Eimskip.

Vitnar Vilhjálmur í því sambandi til fréttar í Viðskiptablaðinu í dag þar sem greint er frá þeim orðrómi að Frontline Holding, sem á rúmlega 33% hlut í Eimskip, sé ekki lengur undir stjórn Magnúar Þorsteinssonar heldur Landsbankans. Grettir, í eigu Björgólfs Guðmundssonar, á svipaðan hlut og Samson er skráð fyrir 4%.

Aðspurður hvort þarna hafi þá ekki myndast klár yfirtökuskylda segir Vilhjálmur svo vera. En ætti Fjármálaeftirlitið þá ekki að kanna málið? „Þú verður að spyrja þá að því," svarar Vilhjálmur.

Hvað þynningu á hlutafé Eimskips vegna lánsins segir Vilhjálmur að við það reikni hann með að hluturinn í félaginu fari úr rúmlega 10 kr. í dag og niður í 2 til 5 kr. „Ég á sjálfur einhverjar tvö til þrjú þúsund krónur í Eimskip og hef borgað af þeim fjármagnstekjuskatt," segir Vilhjálmur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×