Viðskipti innlent

Samningar í gangi við seðlabanka Englands og Evrópu

Friðrik Indriðason skrifar: skrifar
Davíð Oddsson
Davíð Oddsson

Samningaviðræður eru nú í gangi við seðlabanka bæði Englands og Evrópu um lántöku til að styrkja gjaldeyrisvarasjóð Seðlabanka Íslands. Sem kunnugt er af fréttum hefur ríkisstjórnin farið fram á 500 milljarða kr. lántökuheimild á alþingi til þessa og reiknað er með að heimildin verði samþykkt í dag.

Eins og kunnugt er af fréttum hlupu breskir bankamenn upp til handa og fóta á dögunum er fréttist að Ísland hefði áhuga á lántöku í Seðlabanka Englands. Töldu þeir slíkt fráleitt þar sem íslensku bankarnir væru í bullandi samkeppni við þá bresku í Bretlandi. Má þar nefna Icesave í eigu Landsbankans og Edge í eigu Kaupþings.

Samkvæmt heimildum Vísis mun þetta upphlaup bresku bankamannanna þó ekki hafa komið í veg fyrir samningaviðræðurnar.

Eftir því sem Vísir kemst næst er skriður á samningaviðræðunum í báðum fyrrgreindum seðlabönkum en það sem helst þvælist fyrir er hve hátt skuldatryggingarálagið eigi að vera á þeim lánum sem tekin verða.

Skuldatryggingarálagið hjá íslenska ríkinu er í kringum 200 púnkta þessa stundina. Forráðamenn Seðlabanka Íslands telja þetta örugglega of hátt álag og munu reyna að fá það lækkað í þessum lánasamningum. Til þrautarvara munu þeir reyna að fá lánin með breytilegu skuldatryggingarálagi en það hefur farið lækkandi bæði hjá ríkinu og stóru bönkunum þremur á undanförnum vikum.

Eftir því sem Vísir kemst næst munu seðlabankar Englands og Evrópu ekki hrifnir af hugmyndinni um breytilegt álag og vilja frekar hafa það fast á lánunum en þá ef til vill nokkru lægra en það er í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×