Innlent

Gagnrýndi fyrirvaralausan stuðning við eldflaugavarnakerfi

MYND/GVA
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, gagnrýndi harðlega fyrirvaralausan stuðning íslenskra stjórnvalda við þau áform Bandaríkjamanna að koma upp eldflaugavarnarkerfi í Austur-Evrópu. Í umræðum um utanríkis- og alþjóðamál gagnrýndi Steingrímur að ekki væri innistæða fyrir þeim orðum utanríkisráðherra að kynna til sögunna nýja utanríkismálastefnu.

Steingrímur fjallaði nokkuð um leiðtogafund NATO í Búkarest í síðustu viku og vék sérstaklega að stuðningnum við eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna. Spurði hann hvenær sú stefna hefði verið mörkuð að styðja þetta geysilega umdeilda mál og hvenær það hefði verið útkljáð á vettvangi Samfylkingarinnar.

Sagði hann að með áformum Bandaríkjanna væri að vissu leyti verið að færa Evrópu 30 ár aftur í tímann. Bandaríkin hefðu í krafti þess að geta haldið áfram stjörnustríðsuppbyggingu sinni sagt upp afvopnunarsamningi og boðað ratstjárstöðvar í Tékklandi og eldflaugar í Póllandi. Rússar hefðu svarað með því að segja upp samningi um takmörkun vígbúnaðar í Evrópu og boðuðu aukinn vígbúnað. Því væru menn að færast inn í nýtt vígbúnaðarkapphlaup.

Skrapp út úr einkaþotunni og skammaði Rússa

Spurði Steingrímur hvort Ísland ætti sem friðelskandi þjóð að stilla sér upp við hlið haukanna í Bandaríkjunum og þá gagnrýndi hann að ekki hefði verið rætt við utanríkismálanefnd um þetta mál. Þá vakti hann máls á því að því hefði verið komið til fjölmiðla að Geir H. Haarde forsætisráðherra hefði skammað Rússa fyrir flug herþotna í nágrenni Íslands. „Hann skrapp út úr einkaþotunni og skammaði Rússa," sagði Steingrímur og sagði þetta minna á fyrri tíma.

Þá gagnrýndi hann að aukið fé yrði lagt til hernaðarmála hér á landi. Í staðinn fyrir ameríkaniseringu þar sem allt hefði snúist um að trúa á varnarliðið hér á landi hefði komið NATO-væðing og hervæðing íslenskrar utanríkisþjónustu. Spurði hann hver væri hinn eiginlegi óvinur Íslands og sagði menn helst hafa nefnt olíuskip. Varla þyrfti herþotur til þess að verjast þeim. Sagði hann mönnum nær að líta sér nær og búa almennilega að lögreglu og björgunarsveitum og viðbúnaði vegna náttúruhamfara.

Steingrímur sagði engan ágreining um það að Ísland ætti að hafa sjálfstæða utanríkisstefnu en það væri ágreiningur um inntakið í stefnunni, hvar Ísland ætti að skipa sér í sveit. Þá sagði hann að hið nýja NATO væri ekki varnarbandalag heldur léti það til sín taka í fjarlægum heimshlutum sem árásaraðili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×