Innlent

Verkfræðiprófessor vill raforkukauphöll á Íslandi

Egill Hreinsson prófessor.
Egill Hreinsson prófessor.
Álver munu í framtíðinni flytjast frá Íslandi ef hugmyndir Egils Hreinssonar, prófessors við verkfræðideild HÍ, verða að veruleika.

Egill telur að hægt sé að leggja raforkusæstreng til Skotlands þannig að hægt sé að versla með raforku á alþjóðamarkaði. „Mín hugmynd er sú að til þess að koma þessum endurnýjanlegu hreinu orkulindum í verð þurfi að tengja saman markaði," segir Egill. Hann bendir á að þetta hafi þegar verið gert með tengingu frá Noregi til meginlands Evrópu. "„Álver sem eru í Noregi eru ekki eins hagkvæm eftir þetta vegna þess að markaðsverðið á raforku hefur hækkað," segir Egill.

Egill segir að í Noregi og Hollandi sé verslað með raforku á milli raforkukauphalla, þar sem strengeigandinn kaupi eða selji raforku eftir aðstæðum á markaði. Egill segir að viðskiptin séu svipuð og þegar verslað sé með hlutabréf eða gjaldeyri.

Egill segir að strengurinn sé mannvirki sem sé af sömu stærðargráðu og Kárahnjúkavirkun og sé ekki kominn á framkvæmda- eða áætlunarstig. Þegar hann komi verði hann hagkvæmur. Þá muni álverin færa sig annað, eins og þau hafi gert í Noregi.

Hugmyndir Egils eru á meðal þess sem rætt verður á málþingi um raforkumál, sem fram fer á Háskólatorgi klukkan fjögur á morgun. Þar mun hann kynna sögulegar raforkutölur frá Íslandi og Bretlandi.

Ekki er nákvæmlega hægt að segja til um hversu mikið Íslendingar gætu hagnast af sæstreng sem þessum en Egill bendir á að endurnýjanleg orka án útblásturs muni vaxa í verði. Þá segir hann að verðmæti íslensku orkulindanna nemi að minnsta kosti hundruðum milljarða króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×