Innlent

Vörubíl ekið á öfugum vegarhelmingi á móti jeppa

Lögreglan á Selfossi leitar að ökumanni vörubíls vegna alvarlegs umferðaratviks sem varð á Þrengslavegi til móts við Lambafellsnámu á föstudagsmorgun.

Fram kemur í dagbók lögreglunnar að ökumaður jeppa með kerru í eftirdragi hafi verið á leið suður Þrengslaveg þegar vörubifreið var ekið frá námunni og inn á þjóðveginn í veg fyrir jeppabifreiðina.

Vörubifreiðastjórinn ók inn á rangan vegarhelming og hélt sig þar þrátt fyrir að jeppabifreiðin kæmi á móti. Ökumaður jeppabifreiðarinnar, sem var einn í bifreið sinni, sá sér þann kost bestan til að bjarga lífi sínu og lenda ekki beint framan á vörubifreiðinni að beygja til vinstri yfir á rangan vegarhelming. Segir lögregla ljóst að þarna hefði orðið alvarlegt slys ef einhver hefði verið á hinni akreininni og eins ef jeppabifreiðinni hefði verið stefnt útaf veginum.

Ekki tókst að ná niður skráninganúmeri vörubifreiðarinnar og þar sem kerra var aftan í jeppanum gafst ökumanni hans ekki færi á, án hættu, að snúa við til að ná vörubifreiðinni. Hafi einhver vegfarandi orðið vitni að þessu tilviki er hann vinsamlegast beðinn að hafa samband við lögreglu í síma 480-1010.

„Í leiðinni biður lögregla alla vegfarendur sem koma af hliðarvegi inn á þjóðveg að gæta fyllstu varúðar og virða umferðarrétt og tefla ekki á tæpasta vað við að fara inn á þjóðveg. Af þessu tilefni mun lögreglan á Selfossi fylgjast með því á næstunni hvernig umferðarréttur er virtur," segir í dagbók lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×