Innlent

Bryndís kjörin formaður Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða

Á stofnfundi Náttúruverndarsamtök Vestfjarða sem haldinn var á Ísafirði í dag var Bryndís Friðgeirsdóttir kjörin formaður. Þá var samþykkt eftirfarandi ályktun:

Náttúruverndarsamtök Vestfjarða skora á stjórnvöld og forráðamenn sveitarstjórna á Vestfjörðum að standa vörð um vestfirska náttúru með hóflegri og skynsamlegri nýtingu náttúrugæða, rannsóknum á vistkerfi og verndun náttúruverðmæta. Tekið verði fyllsta tillit til náttúrufars, dýralífs, gróðurs og sjávarvistkerfa við stefnumótun og ákvarðanir um samgöngumannvirki, stóriðju, uppbyggingu í ferðaþjónustu og önnur umsvif sem áhrif hafa á umhverfi og landgæði.

Náttúruverndarsamtök Vestfjarða hvetja til þess að komið verði á virkri og víðtækri gagnasöfnun um náttúrufar, dýralíf, sjávarvistkerfi og gróður í samstarfi við rannsóknarstofnanir og fræðasetur á Vestfjörðum. Í þessu skyni verði veitt fé úr ríkissjóði til þess að stofna rannsóknastöðu í náttúru- og umhverfisfræðum.

Náttúruverndarsamtök Vestfjarða kalla eftir samstarfi við stjórnvöld um verndun náttúru, umhverfisfræðslu, friðlýsingu merktra og fagurra staða, verndun minja og skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×