Innlent

Síðasti risaborinn að ljúka störfum

Síðasti risaborinn við Kárahnjúka lýkur borun um miðja næstu viku og verður þá byrjað að hluta hann í sundur og undirbúa flutning úr landi. Bæjarstjóri Seyðisfjarðar kallar eftir yfirlýsingu frá ríkisstjórn um jarðgöng á Mið-Austurlandi svo forsendur skapist til að halda bornum í landinu.

Borinn á nú aðeins 75 metra eftir áður þar til hann brýtur síðasta haftið. Bæjarstjórar þriggja stærstu sveitarfélaga Mið-Austurlands, ásamt austfirskum verktökum, leita nú leiða til að halda bornum eftir í landinu til að bora veggöng og hafa samgönguyfirvöld einnig komið að þeirri vinnu með því að tilnefna menn í starfsshóp. Ólafur Sigurðsson, bæjarstjóri á Seyðisfirði, segir reynsluna frá Kárahnjúkum sýna að slíkir borar séu frábær verkfæri, afkastamikil og hagkvæm. Hann segir að borinn fáist keyptur tiltölulega ódýrt en forsendan sé sú að menn sjái einhver verkefni fyrir hann. Vegagerðin undirbýr gerð sex kílómetra jarðganga milli Eskifjarðar og Norðfjarðar en Austfirðingar vilja að rykið verði dustað af fimmtán ára gömlum áformum um að tengja Neskaupstað, Seyðisfjörð og Egilsstaði með göngum um Mjóafjörð. Aðrar útfærslur sem henta myndu risabor betur hafa einnig verið til skoðunar þannig að hann gæti borað úr Eskifirði yfir í Norðfjörð, síðan í Mjóafjörð, þaðan í Seyðisfjörð og loks að Egilsstöðum nánast í einni striklotu. Ólafur bæjarstjóri segir að það sem vanti sé yfirlýsing frá ríkisstjórn um að Norðfjarðargöng verði aðeins fyrsti áfanginn. Komi slík yfirlýsing muni menn ekki hika við að stofna félag um kaup á risabornum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×