Innlent

Nýr stjórnstöðvarbíll björgunarsveita Árnessýslu

Bíllinn.
Bíllinn. Svæðisstjórn björgunarsv. Árnessýslu

Svæðisstjórn björgunarsveita í Árnessýslu tekur formlega í notkun nýjan stjórnstöðvarbíl klukkan 16 í dag. Bíllinn, sem er af gerðinni Ford 450, er búinn fullkomnum tækjum til aðgerðastjórnunar af öllu tagi á vettvangi.

Í honum er aðskilið fundarými og er hann búinn veðurstöð, skjám til ferilvöktunar í Tetra-kerfinu og öllum tölvubúnaði sem á þarf að halda við hvers kyns stjórnun aðgerða og í almannavarnaástandi. Lögreglu, slökkviliði og öðrum samstarfsaðilum björgunarsveitanna verður boðinn bíllinn til afnota verði þörf á því og mun svæðisstjórnin undirrita viljayfirlýsingu þar að lútandi klukkan 16 í dag í Reiðhöllinni Ingólfshvoli og fjölmiðlum við sama tækifæri boðið að skoða bílinn.

„Í svæðisstjórninni sitja 18 fulltrúar en virkir félagar í björgunarsveitum Árnessýslu eru um 130," segir Þorvaldur Guðmundsson, formaður svæðisstjórnarinnar. Hann segir kaup nýja bílsins hafa verið fjármögnuð með tryggingafé eldri bíls sem brann í Hveragerði, sparifé svæðisstjórnarinnar og frjálsum framlögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×