Viðskipti innlent

Ekki fleiri uppsagnir í fjármálageiranum en áður

Friðbert Traustason formaður Samtaka starfsmanna Fjármálafyrirtækja.
Friðbert Traustason formaður Samtaka starfsmanna Fjármálafyrirtækja.

„Frá áramótum eru uppsagnir hjá þeim sem ekki hafa fengið fastráðningu um 100 í öllu kerfinu," segir Friðbert Traustason formaður Samtaka starfsmanna Fjármálafyrirtækja. Mikil umræða hefur verið um uppsagnir í fjármálageiranum undanfarið í kjölfar ástandsins í geiranum.

Friðbert segir að félagsmenn sínir séu um 5.500 og því sé innan við 2% þeirra sem hefur verið sagt upp. Hann segir SSF fylgjast náið með uppsögnum í bönkunum og bendir á að þær séu ekki fleiri núna en undanfarin ár.

Hann segir að í flestum tilvikum sé fólkið ráðið til reynslu í 6 mánuði og að þeim tíma liðnum sé tekin ákvörðun um fastráðningu.„Stundum er fólk ekki að standa sig og fær því ekki fastráðningu."

Friðbert segir að oft sé fólk ráðið í tímabundin verkefni hjá bönkunum og það fólk sé inni í þessari tölu. „Þessar sögur um rosalegar uppsagnir í þessum geira eiga því ekki við rök að styðjast."

Friðbert segir að bankarnir þurfi ekkert að grípa til uppsagna og bendir á að 10% af félagsmönnum SSF séu alltaf í vissu flæði á milli stofnanna.

„Mikið af þessu unga fólki er á árangurstengdum launum og ef það sér fram á einhvern samdrátt þá drífur það sig oft í framhaldsnám. Einnig eru margir sem flakka á milli þessa stofnanna."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×