Viðskipti innlent

Geir Haarde talaði markaðinn upp í góða stöðu

Friðrik Indriðason skrifar

Allt bendir til að Geir Haarde forsætisráðherra hafi tekist að styrkja gengi krónunnar og tala hlutabréfamarkaðinn upp í góða stöðu í dag. Frá því að viðtal við hann birtist í Financial Times í morgun hefur gengi krónunnar styrkst um rúm 3 prósent og úrvalsvísitalan hefur hækkað um 4 prósent.

Samhliða þessu hefur skuldatryggingarálagið hjá stóru bönkunum þremur sem og hjá ríkissjóði lækkað um á bilinu 50 til 125 punkta frá því sem það var í upphafi vikunnar.

„Þetta sýnir að orðin ein geta haft góð áhrif á markaðinn og ég tel það jákvætt sem forsætisráðherra lét frá sér fara í morgun," segir Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningar Glitnis, í samtali við Vísi.

Eins og fram hefur komið í fréttum hótaði Geir því í viðtalinu við Financial Times að grípa til beinna aðgerða gegn vogunarsjóðum ef þeir ætluðu sér áfram að reyna að græða á því að veikja gengið og hlutabréfamarkaðinn með ósanngjörnum og jafnvel ólöglegum aðgerðum. Hann vildi þó ekki greina frá til hvaða aðgerða yrði gripið.

Ingólfur Bender segir að yfirlýsingar eins og þær sem Geir gaf geti valdið því að undið sé ofan af þeim stöðum sem teknar eru til skamms tíma á markaðinum. Einnig og ekki síður geti þetta verið víti til varnaðar þeim sem ætla sér að leika saman leikinn aftur.

Hvað sjálfar aðgerðirnar varðar nefnir Ingólfur sem dæmi að ríkissjóður geti gripið inn í markaðinn. Til dæmis á þann hátt að gjaldeyrisvaraforði landsins sé notaður til að spila á móti skortstöðum vogunarsjóða þannig að þeir fari með tapi út úr þeim stöðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×