Viðskipti innlent

Mars var annar veltumesti mánuðurinn með skuldabréf

Mars var annar veltumesti mánuðurinn með skuldabréf samkvæmt yfirliti um markaðinn frá kauphöllinni. Heildarvelta á skuldabréfamarkaði í mánuðinum var 564 milljarðar kr. en í janúar s.l. var metið sett eða 683 milljarðar kr.

Það sem af er ári nemur heildarveltan 1.619 milljörðum kr. og er það meiri velta en á þremur fyrstu ársfjórðungum síðasta árs en þá nam heildarveltan 1.592 milljarðar kr.

Kaupþing Banki var með mestu hlutdeildina á skuldabréfamarkaði eða um 27%, næst kom Glitnir banki með 20,2% hlutdeild og því næst Landsbankinn með 19% hlutdeild.

Lítil velta var á hlutabréfamarkaði í mánuðinum eins og fyrri mánuði en veltan nam aðeins 172 milljörðum kr.. Heildarveltan með hlutabréf á fyrsta ársfjórðungi var 513 milljarðar kr. og nemur veltusamdrátturinn 38% frá sama tímabili í síðasta ári.

Mest viðskipti voru með bréf Glitnis (48 milljarðar), með bréf Kaupþings (39 milljarðar) og með bréf Landsbankans (32 milljarðar). Landsbankinn hækkaði mest eða um 10,5%, því næst kom Kaupþing sem hækkaði um 9,9% í mánuðinum.

FL Group lækkaði mest eða um 33% og Hf. Eimskipafélagið lækkaði um 23% frá seinasta mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×