Viðskipti innlent

Börsen segir ótta um hrun auka þrýstingin á krónuna

Viðskiptablaðið Börsen fjallar um fréttirnar frá Fitch í dag undir fyrirsögninni "Óttinn við hrun eykur þrýstinginn á krónuna". Sem kunnugt er af fréttum hefur Fitch breytt lánshæfishorfum ríkissjóðs úr stöðugum í neikvæðar. Og Fitch er með bankana þrjá á athugunarlista með mögulega lækkun í huga.

Fram kemur í Börsen að krónan hafi fallið um 28% frá því í október á síðasta ári. Einnig er þess getið að hlutir í Kaupþingi hafi fallið um 2,24% í dag og í Glitni um 1,45%. Hér skal tekið fram að þessar tölur eru frá því fyrr í dag og sem stendur hafa þessar lækkanir gengið til baka. Kaupþing er nú í mínus 1,2% og Glitnir er í mínus 0.8%.

Börsen tekur fram að samkvæmt Reuters-frétt telur Fitch að staða bankana sé traust og þeir geti starfað áfram næstu mánuði án þess að þurfa hlutafjáraukningu.

Í frétt Börsen er síðan fjallað um skuldatryggingarálag íslensku bankanna sem er í hæstu hæðum um þessar mundir. Álagið á Glitni er 1002 púnktar, á Kaupþing 990 og Landsbankann 841 púnktar. Til samanburðar nefnir Börsen að álagið á Rabobank sé 70 púnktar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×