Viðskipti innlent

Íslenska úrvalsvísitalan hefur lækkað mest

MYND/Stefán

Íslenska úrvalsvísitalan hefur lækkað mest á fyrsta ársfjórðungi ársins borin saman við helstu vísitölur hlutabréfa í þróaðri löndum. Icelandic Group, FL Group, SPRON og Exista voru þau félög sem féllu um og yfir 50 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Frá janúar til mars lækkaði úrvalsvísitalan í Kauphöll Íslands um 20,1 prósent. Þar sem fjármálafyrirtæki vega mjög þungt í vísitölunni hér á landi hefur lánsfjárkreppan haft meiri áhrif til lækkunar en víða annars staðar.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 3,4 prósent milli febrúar og mars og hefur ekki hækkað milli mánaða síðan í október. Sé þróunin skoðuð annars staðar sést að vísitölur í Japan og Þýskalandi hafa einnig fallið greitt á ársfjórðungnum. Vísitala Bloomberg yfir 500 stærstu félög í Evrópu sýnir fall um 15,6 prósent. Annars staðar á Norðurlöndum hafa hlutabréfavísitölur fallið minna, minnst í Danmörku eða um 7,8 prósent.

Icelandic Group hefur verið í frjálsu falli og virðast fréttir um afdrif eða stöðu fyrirtækisins hafa lekið út á markaðinn án þess að tilkynning hafi borist Kauphöllinni. Þar á eftir koma fjármálafélögin FL Group, SPRON og Exista sem hafa fallið í verði um 50 prósent á tímabilinu. 365 miðlar, Eimskip og Eik banki féllu um meira en 30 prósent.

Færeyjarbanki hækkaði um 35,7 prósent á fjórðungnum og er eina félagið sem sýndi svo góða frammistöðu á fyrstu þremur mánuðum ársins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×