Viðskipti innlent

Íslendingar í stórframkvæmdum í Búkarest

Jafet Ólafsson fer fyrir hópi stórhuga fjárfesta í Rúmeníu.
Jafet Ólafsson fer fyrir hópi stórhuga fjárfesta í Rúmeníu.

Hópur íslenskra fjárfesta áætlar að byggja um 1500 íbúðir í höfuðborg Rúmeníu, Búkarest, á næstu árum. Verkefnið er komið á góðan skrið og þegar er búið að afhenda tugi íbúða. Jafet Ólafsson, framkvæmdastjóri fjárfestingafélagsins Veigs fer fyrir hópnum og hann segir mikla möguleika vera fyrir hendi í Austur-Evrópu ekki síst í fasteignaviðskipum.

Verkefnið er mjög umfangsmikið, en í rúmenskum miðlum er sagt að fjárfestingin nemi um 18 milljörðum króna. „Þetta gengur mjög vel, segir Jafet Ólafsson sem fer fyrir hópnum en sex til sjö Íslendingar standa á bakvið verkefnið en fyrirtæki þeirra utan um starfsemina heitir Gigant Construct. Aðspurður hvort mikill munur sé á því að standa í fasteignaviðskiptum í Búkarest samanborið við Reykjavíks svarar Jafet: „Það er gjörólíkt. Efnahagsvöxtur í Rúmeníu er áætlaður sjö prósent á næstu árum og mikil vöntun er á góðu húsnæði."

Íbúðirnar sem um ræðir eru að sögn Jafets í meðalverðflokki og uppúr en hverfið er í útjaðri Búkarest á leiðinni til Svartahafsins. „Menn voru í viðskiptum í Eystrasaltinu og fóru í framhaldinu af því að kanna Austur-Evrópu nánar, við höfum verið á þessu svæði í nokkur ár núna," segir Jafet aðspurður hvað hafi leitt þá félaga til Búkarest.

Hann vildi ekki fara nánar út í hverjir viðskiptafélagar hans í verkefninu séu. „Við höfum viljað hafa frekar lágan prófíl á þessu en ég farið fyrir þessum hópi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×