Viðskipti innlent

Verðbólga aðeins undir markmiði í 18 mánuði af 84

MYND/GVA

Verðbólga hér á landi hefur aðeins verið í 18 mánuði af 84 undir 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði Seðlabankans frá því að núverandi peningamálastefna var tekin upp.

Bent er á í Morgunkorni Glitnis að peningamálastefnan fagni í dag sjö ára afmæli en 27. mars 2001 tók Seðlabankinn upp verðbólgumarkmið. Þá var krónunni hleypt á flot en um leið varð krónan minnsti flotgjaldmiðill í heimi. Þá hlaut Seðlabankinn fullt sjálfstæði frá stjórnvöldum til að vinna að verðbólgumarkmiðinu og svigrúm til beita til þess tækjum sínum án utanaðkomandi þrýstings pólitískra valdhafa.

Stýrivextir þeir næsthæstu á þróuðum fjármálamörkuðum

Greiningardeildin bendir á að á afmælinu séu stýrivextirnir 15 prósent og hafi þeir aldrei verið hærri. Þá séu þeir hvergi hærri í hagkerfum með þróaðan fjármálamarkað að Tyrklandi undanskildu þar sem vextir eru 15,25 prósent. Undanfarin sjö ár hafi stýrivextir Seðlabankans verið að meðaltali 9 prósent en á lægst hafa vextirnir farið niður í 5,3 prósent á tímabilinu en það vaxtastig var í gildi lungann úr árinu 2003 og fram á vor árið 2004.

Greiningardeildin segir enn fremur að af þeim 84 mánuðum sem liðnir eru frá því að verðbólgumarkmiðið var tekið upp hefur verðbólgan verið í 18 mánuði á eða innan við 2,5 prósent en í 66 mánuði hefur verðbólgan verið ofan við 2,5 prósent markmiðið. Markmiðið hefur því verið tryggt í rétt ríflega fimmtungi af þeim tíma sem verðbólgumarkmiðið hefur verið við lýði.

Engin lognmolla eða sátt um peningamálastefnu

Verðbólgan hefur undanfarin sjö ár verið að meðaltali 4,7 prósent, sem sé nærri tvöfalt verðbólgumarkmiðið. Hæst hefur verðbólgan farið á tímabilinu í 9,4 prósent og var það í janúar 2002 og lægst hefur hún verið 1,4 prósent en það var í janúar 2003. „Ekki kæmi á óvart að verðbólgan setji nýtt met á næsta ársfjórðungi en við búumst við að verðbólgukúfur sé framundan sem á rætur sínar aðallega að rekja til lækkandi gengis krónunnar undanfarnar vikur," segir í Morgunkorninu en krónan sé nú í sögulegri lægð.

Greiningardeildin bendir að hvorki lognmolla né almenn sátt ríki um peningamálastefnu Seðlabankans á sjö ára afmælinu. „Sagan vinnur ekki með Seðlabankanum og trúverðugleiki peningastefnunnar er lítill. Spjótin standa að Seðlabankanum úr öllum áttum og mikil umræða hefur farið fram á undanförnum árum um skilvirkni peningamálastefnunnar í hlutverk Seðlabankans í þessu litla og opna hagkerfi. Alls er óvíst er hvort að peningamálastefna Seðlabankans nái að klára annan sjö ára áfanga en umræða um aðrar lausnir er hávær um þessar mundir. Umræðan um aðild að Evrópusambandinu og upptöku evrunnar byggir m.a. á lélegum árangri peningastefnunnar hér á landi. Ljóst er að saga peningastefnunnar síðustu sjö árin kann að hafa mikil áhrif á framtíð og hlutverk bankans," segir í Morgunkorni Glitnis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×