Viðskipti innlent

SpKef þarf að hlutafélagavæðast áður en af sameiningu getur orðið

Baldur Guðmundsson markaðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur.
Baldur Guðmundsson markaðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur. MYND/Vilhelm

„Þetta var rætt á aðalfundi félagsins en þessu þarf að slá á frest þar sem fyrst þarf að breyta okkur í hlutafélag áður en að sameiningunni getur orðið,“ segir Baldur Guðmundsson markaðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík um sameiningu bankans og Icebank.

Baldur segir að Sparisjóðurinn geti ekki sameinast Icebank fyrr en bankinn verður að hlutafélagi en ákvörðun var tekin á aðalfundi félagsins um að vinna færi í gang að breyta Sparisjóðnum í hlutafélag.

„Sú vinna er í ákveðnum farvegi og það er í raun ekkert fast í hendi. Við getum ekki gefið frá okkur yfirlýsingu um að við munum sameinast Icebank fyrr en búið er að breyta sjóðnum í hlutafélag. Þá fyrst er hægt að skoða hvort sameiningin sé fýsilegur kostur," segir Baldur. Hann bendir þó á að helsta markmið hlutafélagavæðingarinnar sé að gera félaginu hægara um vik að fjármagna starfsemi sína.

Aðspurður um hvenær Sparisjóðurinn verði að hlutafélagi segir Baldur það ferli taka ákveðinn tíma sem mældur er í mánuðum. „Það mun því ekkert draga til tíðinda í þessu fyrr en í sumar."

Ekki náðist í Agnar Hansson bankastjóra Icebank sem var á fundi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×