Innlent

Mikilvægt að rannsaka hvað olli krónuhruni

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, krefst þess að það verði rannsakað hvað olli því að krónan féll eins og raunin varð fyrir páska. Þetta kom fram í þættinum Ísland í dag í kvöld. „Það er mikilvægt að rannsaka hvað gerðist fyrir páska sem olli því að krónan féll svona rosalega," sagði Gylfi.

Hann sagði ekkert rökstyðja hrunið sem varð dagana fyrir páska. „Það er fullyrt að bankarnir eigi þátt í þessu. Ég hef ekki hugmynd um það, en við óskum eftir því að fá að vita hvað orsakaði þetta."

Gylfi sagði, að eigi verkalýðshreyfingin að axla ábyrgð á því að ná stöðugleika hér á landi, þá gangi sú ábyrgð ekki til þess að „skaffa innlendum aðilum aðilum tækifæri til að spila svona á markaðinn. Það getur vel verið að þetta sé löglegt en það er klárlega ekki það sem við lögðum upp með í forsendum okkar kjarasamninga," sagði Gylfi Arnbjörnsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×