Viðskipti innlent

Veiking krónunnar kallaði á hærri vexti

Lárus Welding er forstjóri Glitnis.
Lárus Welding er forstjóri Glitnis.

Stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans kemur ekki á óvart í ljósi breyttra aðstæðna á markaði og veikingu krónunnar á undanförnum dögum, að sögn Lárusar Welding, forstjóra Glitnis. Hann segir að horfur um verðbólgu hafi breyst og séu nú verulega yfir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans. „Það er því eðlilegt að Seðlabankinn bregðist nú við og hækki stýrivexti í 15%," segir Lárus í svari til Vísis.

Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður Greiningadeildar Landsbankans, segir að stýrivaxtahækkun Seðlabankans sé í takti við það sem bankinn hafi boðað í nóvember, að stýrivextir myndu hækka ef krónan veiktist.

Hún segir aðgerðir Seðlabankans í morgun vera tvíþættar. Annars vegar sé það vaxtahækkun, en hins vegar sé verið að liðka fyrir mörkuðum með því að gefa út mikið af skuldabréfum. „Það sem er afar mikilvægt að þessu sinni eru þessar hlliðaraðgerðir. Með þeim aðgerðum er Seðlabankinn að tryggja að markaðsvextir fylgi betur stýrivöxtum en þeir hafa gert," segir Edda Rós.

Hún segir að markaðsvextir hafi að undanförnu ekki náð að fylgja stýrivöxtum Seðlabankans eftir. Það hafi orðið til þess að krónan hafi fallið miklu hraðar og meira en ella. Þessi liðkun sem væri gerð núna ætti að draga úr ýktum sveiflum krónunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×