Viðskipti innlent

Kolsvart útlit eða ljós í myrkrinu

Hrun íslensku krónunnar í síðustu viku hefur vakið athygli fjölmiðla bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum. Telegraph líkir Íslandi við eitraðan vogunarsjóð en Wall Street Journal segir ástandið ekki jafnslæmt og margir vilji að láta.

Í grein Telegraph segir að íslenska ríkisstjórnin berjist í bökkum við að koma í veg fyrir hrun efnahagslífsins. Haft er eftir sérfræðingi að litið sé á Ísland sem eitraðan vogunarsjóð og að bankarnir hafi farið langt fram úr sér. Bent er á að bankarnir hafi tapað háum fjárhæðum og sögur séu uppi um að Kaupþing banki verði þjóðvæddur á næstu misserum. Í grein Telegraph kemur einnig fram að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hafi reynt að gera grein fyrir stöðu íslensks efnahagslífs á erlendum vettvangi, en hann hafi talað fyrir daufum eyrum.

Wall Street Journal er öllu jákvæðara í garð íslensks efnahagslífs. Þó er bent á mikil krosseignatengsl í íslensku viðskiptalífi og því skapast sú hætta að fari einn íslensku bankanna á hausinn, hafi það keðjuverkandi áhrif og hættan á hruni eykst. Einnig sé það áhyggjuefni að um 40 vogunarsjóðir hafi tekið þá stöðu að veðja á að hagnast á gjaldþroti íslenskra fyrirtækja.

Hins vegar er tekið fram að eiginfjárstaða íslenskra banka sé mjög sterk, um 10 prósent samanborið við 6 prósent hjá bandarískum bönkum. Þar að auki hafi íslenskir bankar ekki tapað miklu á undirmálslánum á bandarískum húsnæðislánamarkaði.

Enn fremur segir blaðið að staðfesta Seðlabankans í að halda niðri verðbólgu hafi róandi áhrif á fjárfesta. Einnig liggi fyrir samkomulag milli norrænu Seðlabankanna sem felst í því að lendi einn þeirra í vandræðum, hlaupi aðrir undir bagga og tryggi neyðarfjármögnun. Þetta ætti að slá á áhyggjur fjárfesta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×