Viðskipti innlent

Dýrast að leigja verslunarhúsnæði í Kringlunni

MYND/Heiða

Leiga á verslunarhúsnæði er dýrust í Kringlunni og næsta nágrenni en ódýrust í Hafnarfirði. Þetta kemur fram kemur í könnun ParX viðskiptaráðgjafar IBM, dótturfélags Nýherja, um þróun leiguverðs á verslunarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri fyrir árin 2004-2007.

Í tilkynningu frá ParX segir enn fremur að leiguverð í Kringlunni hafi verið nærri 4200 krónur á fermetra árið 2007 en 815 krónur á fermetra í Hafnarfirði. Leiguverð á verslunarhúsnæði á Akureyri var tæpar 1.400 krónur á fermetra í fyrra.

Þorkell Guðmundsson, sérfræðingur hjá ParX, segir í tilkynningunni að leiguverð á verslunarhúsnæði hafi almennt hækkað frá árunum 2004 til 2007 þrátt fyrir að framboðið virðist hafa aukist. „Hafnarfjörður sker sig hins vegar úr því þar hefur verð lækkað á umræddu tímabili og var lægst árið 2007. Þá vekur athygli að ódýrasta leiguverðið í Reykjavík er í Vogum og Sundum, eða 1.122 krónur á fermetra," segir Þorkell.

Hann segir marga þætti geta haft áhrif á leiguverð, svo sem í Hafnarfirði, þar sem hlutfallslega sé meira af heildverslunum heldur en víða annars staðar.

Markmiðið með könnun ParX er að sýna yfirlit yfir þróun leiguverðs á verslunarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Könnunin árið 2007 náði til u.þ.b. 650 leigusamninga en ný könnun á leiguverði verslunarhúsnæðis fyrir árið 2008 stendur yfir hjá ParX.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×