Viðskipti innlent

Exista gerir yfirtökutilboð í Skipti

Bakkavararbræður eru stærstu hlutahafar í Existu með 45,21 prósent.
Bakkavararbræður eru stærstu hlutahafar í Existu með 45,21 prósent. MYND/Vilhelm

Stjórn Exista hf. ákvað á fundi sínum í morgun að leggja fram valfrjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Skipta hf. Tilboð Exista hljóðar upp á 6,64 krónur á hlut sem er sama verð og í nýafstöðnu hlutafjárútboði Skipta.  Voru viðskipti með bréf Skipta stöðvuð tímabundið af þessum sökum.

Greitt verður með nýjum hlutum í Exista sem verða verðlagðir í samræmi við lokagengi á OMX ICE í gær, 18. mars, sem var 10,1 króna á hlut. Fyrirhugað er að tilboðið standi í átta vikur. Verði gengið að tilboðinu mun Exista leggja til við stjórn Skipta að óskað verði eftir afskráningu félagsins eins fljótt og auðið er.

Ástæða tilboðs Exista er sú að félagið telur ekki vera grundvöll fyrir eðlilega verðmyndun með hlutabréf Skipta á markaði í ljósi niðurstöðu nýafstaðins hlutafjárútboðs og þeirra óvenjulega erfiðu markaðsaðstæðna sem nú ríkja. Vegna samþjappaðs eignarhalds og markaðsaðstæðna eru verulegar líkur á því að félagið og hluthafar þess muni ekki njóta þeirra kosta sem fylgja skráningu í kauphöll.

Stefnt er að því að kanna skráningu félagsins á ný þegar aukið jafnvægi verður komið á fjármálamörkuðum.

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista segir í tilkynningu um málið að sem leiðandi hluthafi axli Exista ábyrgð gagnvart Skiptum og starfsfólki

þess. "Við núverandi markaðsaðstæður teljum við mikilvægt að tryggja stöðugleika í eignarhaldi félagsins og styðja þannig frekar við vöxt þess og trausta þjónustu við viðskiptavini," segir Lýður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×