Viðskipti innlent

Glitnir selur breytanleg skuldabréf fyrir 15 milljarða

Lárus Welding
Lárus Welding MYND/Eyþór

Góð eftirspurn var eftir breytanlegum skuldabréfum Glitnis í skuldabréfaútboði bankans sem lauk í gær. Heildarfjárhæð útgáfunnar var 15 milljarðar króna en bréfin voru seld í lokuðu útboði til innlendra fagfjárfesta sem hófst í síðustu viku.

Útgáfan telst til eiginfjárþáttar A og styrkir þannig eiginfjárhlutfall Glitnis umtalsvert. Markaðsviðskipti Glitnis voru umsjónaraðili útboðsins.

Lárus Welding, forstjóri Glitnis, er ánægður með niðurstöðu útboðsins. "Við lokuðum þessu útboði á miklum óvissutíma á fjármálamörkuðum sem endurspeglar traust fjárfesta á starfsemi og skuldaraáhættu Glitnis. Þessi skuldabréfaútgáfa var sniðin að íslenskum fagfjárfestum sem þekkja bankann og þá sérstaklega lífeyrissjóðunum", segir Lárus.

Skuldabréfin breytast að fimm árum liðnum í hlutabréf í Glitni banka hf. Útgáfa skuldabréfanna og heimild til hækkunar hlutafjár er háð samþykki hluthafafundar. Hluthafafundur verður haldinn miðvikudaginn 19. mars 2008 kl. 9:00 í höfuðstöðvum Glitnis banka hf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×