Viðskipti innlent

Enginn krónukvíði hjá Exista

Lýður og Ágúst Guðmundssynir.
Lýður og Ágúst Guðmundssynir.

Sigurður Nordal hjá fjármálaþjónustufyrirtækinu Exista kvað menn ekki vera með böggum hildar þar á bæ vegna gengisþróunarinnar. „Við gerum upp í evrum svo þetta ástand breytir ekki miklu fyrir okkar forsendur.

Það er auðvitað leiðinlegt að horfa upp á þróunina á hlutabréfamarkaðnum, við erum að sjá lækkun núna í morgun á íslenska markaðnum sem er ólíkt því sem er í gangi í Evrópu.

Sem dæmi nefni ég okkar stærstu eign í Sampo í Finnlandi sem hefur hækkað um 3% í morgun þannig að íslenski markaðurinn hefur ekki verið að haldast í hendur við þann erlenda í dag eins og hann hefur almennt verið að gera," sagði Sigurður og bætti því við að auðvitað væri full ástæða til að hafa áhyggjur af efnahagsástandinu almennt og eðlilegt væri að menn skoðuðu hvernig þeir ætluðu að bregðast við og hvaða lausnir væru tiltækar.

„Við höfum búið okkur undir að þetta ástand muni vara um nokkurt skeið," sagði Sigurður, inntur eftir því hvernig hann sæi næstu mánuði fyrir sér, „og höfum lagt mikla áherslu á lausafjárstöðu okkar með tilliti til þess. Það er skynsamlegt að safna sér forða þegar svona árar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×