Viðskipti innlent

Sameiningarferli lokið hjá Opnum kerfum og Titan

Frosti Bergsson, stjórnarformaður Opinna kerfa.
Frosti Bergsson, stjórnarformaður Opinna kerfa.

Lögformlegu sameiningaferli Opinna kerfa og Titan lauk í dag þegar hluthafafundir fyrirtækjanna samþykktu sameiningu. Hjá sameinuðu fyrirtæki eru 140 starfsmenn og er áætluð velta 4,5 milljarðar króna. Samhliða sameiningunni tekur nýtt skipurit gildi hjá Opnum kerfum.

Frosti Bergsson stjórnarformaður Opinna kerfa segir að nýju skipuriti sé ætlað að draga fram nýja áhersluþætti í rekstri sameinaðs félags. „Fyrir utan það að vera sölu- og þjónustuaðili á HP, Cisco og Microsoft lausnum á Íslandi þá viljum við skerpa á nálgun okkar varðandi þjónustu til fyrirtækja sem eru með stórar tölvudeildir og vinna í alþjóðlegu umhverfi. Við munum leggja mun meiri áherslu en áður á alrekstrarlausnir sem henta fyrirtækjum sem vilja úthýsa upplýsingatæknimálunum og Microsoft hugbúnaðarlausnir eru færðar yfir í nýtt svið og höfum við hug á að stórefla þann þátt í starfseminni."

Fjögur tekjusvið er að finna í nýju skipuriti. Þessi svið eru kerfislausnir, rekstrarlausnir, Microsoft lausnir og heildsala.

Kerfislausnasvið þjónar fyrirtækjum sem hafa stærri tölvudeildir, reka eigin tölvusali og eru mörg hver með alþjóðlega starfsemi. Dæmi um viðskiptavini kerfislausnasviðs eru bankarnir, fjarskiptafyrirtæki, ASP fyrirtæki og flutningafyrirtækin. Framkvæmdastjóri kerfislausna er Benedikt Gröndal.

Rekstrarlausnarsvið sinnir almennri sölu og þjónustu auk þess sem þar verða boðnar pakkalausnir og alrekstrarlausnir fyrir fyrirtækjamarkað. Framkvæmdastjóri rekstrarlausna er Gunnar Guðjónsson.

Á Microsoft lausnasviði er megináherslan á sölu og þjónustu tengda lausnamengi Microsoft. Ráðgjöf og sérsniðnar lausnir er einnig að finna á Microsoft lausnasviði. Framkvæmdastjóri Microsoft lausna er Árni Þór Jónsson.

Heildsala Opinna kerfa sinnir heildsöluþjónustu fyrir HP á íslenskum markaði. Þar að auki sinnir heildsalan almennri sölu á tölvubúnaði, hugbúnaði og rekstrarvörum fyrir íslenskan endursölumarkað. Heildsalan er jafnframt eini íslenski dreifingaraðili Microsoft á Íslandi. Framkvæmdastjóri heildsölusviðs er Sverrir Jónsson.

Forstjóri Opinna kerfa ehf. er Agnar Már Jónsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×