Viðskipti innlent

Eimskip tapaði 4,2 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi

Tap Eimskips á fyrsta ársfjórðungi 2008 nam 39 milljónum evra eða sem samsvarar 4,2 milljörðum kr.

Fjallar er um uppgjörið í Morgunkorni greiningar Glitnis. Þar segir að greiningin hafi gert ráð fyrir 34.5 milljóna evra tapi og er uppgjörið því undir væntingum greiningarinnar.

Tap Eimskip á sama tímabili fyrir ári síðan nam 5,6 milljónum evra. Þá tapaði Eimskip 7,8 milljónum evra á 4. ársfjórðungi 2007.

Greiningin segir að tapið nú má að hluta rekja til hárra fjármagnsliða en þeir námu 57,1 milljónum evra á fjórðungnum. Vaxtakostnaður uppá 29,9 milljónum evra og gengistap lána félagsins upp á 17,9 milljónir evra vega þar þyngst.

Til samanburðar nam gengishagnaður fyrsta ársfjórðungs 2007, 13 milljónum evra. Um helmingur af vaxtaberandi skuldum félagsins eru fasteignalán tengd verkefnum félagsins í N-Ameríku.

Tekjur Eimskip á tímabilinu námu 440 milljónum evra og jukust um 44% frá sama tímabili árið áður. Aukningin skýrist að mestu af innkomu Versacold í samstæðuna.

 

Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri Samskiptasviðs Eimskips segir uppgjörið hafa verið í samræmi við væntingar félagsins. Undirliggjandi tekjuvöxtur hafi verið góður milli ára eða um 10% og eins sé framlegð félagsins að styrkjast.

"Við erum því ánægðir með rekstur félagsins en eins og búist var við eru fjármagnsliðir háir, sem tengist yfirtökum okkar á síðasta ári. Við munum selja ákveðnar eignir í Kanada á næstu tveimur mánuðum eins og við gáfum út við kaupin í fyrra og þá mun vaxtakostnaður lækka verulega og uppgreiðsla skulda nema um 550 milljónum evra. Frá og með þriðja ársfjórðungi okkar, sem er frá byrjun maí munum við sjá mikla breytingu á afkomu félagsins, samhliða góðum tekjuvexti og framlegðaraukningu eftir því sem líður á árið,“ segir Halldór við Vísi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×