Viðskipti innlent

Enginn áhugi hjá Dönum á fundinum í Kaupmannahöfn

Ingibjörg Sólrún ræddi við TV2 í kjölfar fundarins í gær en aðrir miðlar í Danmörku sýndu fundi Viðskiptaráðs lítinn áhuga.
Ingibjörg Sólrún ræddi við TV2 í kjölfar fundarins í gær en aðrir miðlar í Danmörku sýndu fundi Viðskiptaráðs lítinn áhuga. MYND/Stöð 2

Enginn áhugi var meðal danskra fjölmiðla á ráðstefnunni um íslensk efnahagsmál í Kaupmannahöfn í gær. Ekki er staf að finna um fundinn á vefsíðum allra helstu dagblaða í Danmörku í dag.

Ef frá er talin örstutt umfjöllun um fundinn ásamt viðtali við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra í einum af fréttatímum sjónvarpsstöðvarinnar TV2 síðdegis í gær er eins og fundurinn hafi alls ekki verið haldinn.

Ekki einu sinni viðskiptasíður Börsen og Berlingske sáu ástæðu til að greina frá fundinum en yfirleitt er fjallað þar um allt sem Íslendingar taka sér fyrir hendur í fjármálalífi Danmerkur og víðar.

Jón Hákon Magnússon ráðgjafi hjá KOM-Almannatengslum segir að þetta komi sér ekki á óvart. „Það þýðir ekkert að senda bara út fréttatilkynningu og halda svo að allir mæti," segir Jón Hákon. „Það þarf að undirbúa svona mál vel og leita til fagfólks eða almennatengla sem gjörþekkja viðkomandi fjölmiðlamarkað. Slíkt virðist ekki hafa verið gert."

Jón Hákon segir að hann skilji ekki afhverju ríkið og bankarnir hafi ekki kynningu á sér og fyrir sig stöðugt í gangi í Danmörku. „Ég get nefnt sem dæmi að Danir eru meðal þeirra tíu þjóða sem eyða hvað mest í kynningarstarf í Washington og nota til þess fagfólk sem gjörþekkir til aðstæðna," segir Jón Hákon.

Aðspurður um fundinn sem Geir Haarde efnir til í New York í vikunni um sama málefni segir Jón Hákon að sennilega verði árangurinn þar sá sami og varð í Kaupmannahöfn ef undirbúningi hefur verið með sama hætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×