Viðskipti innlent

Íslensku bankarnir hafa ekki notið sannmælis í fjölmiðlum

MYND/Pjetur

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra telur að íslensku bankarnir hafi ekki notið sannmælis í umfjöllun fjölmiðla um stöðu þeirra. Þetta kom fram í ræðu sem hún hélt á ráðstefnu Viðskiptaráðs um íslensk efnahagsmál í Kaupmannahöfn í dag.

Í ræðu sinni fór Ingibjörg í gegnum samskipti Dana og Íslendinga í gegnum aldirnar og minntist meðal annars á einokunarverslun Dana fyrr á öldum. Þá fór yfir hraðan vöxt íslensks efnahagslífs og þær hræringar sem eiga sér stað á fjármálamörkuðum nú.

Benti hún að þær hræringar hefðu áhrif um allan heim en þær mætti fyrst og fremst rekja til undirmálslánakreppunnar í Bandaríkjunum. Benti hún á að íslenskir bankar hefðu ekki fjárfest í tengslum við lánin, ólíkt mörgum evrópskum og bandarískum bönkum. Þess vegna teldi hún að bankarnir hefðu ekki notið sannmælis í fjölmiðlum.

Þá sagði hún Ísland vel búið ef til kreppu kæmi, ríkissjóður væri næstum skuldlaus og lífeyrissjóðirnir væru einkar sterkir. Þá stæðu íslensku bankarnir styrkum fótum og að kjarnastarfsemi þeirra hefði vaxið á síðasta ári þrátt fyrir undirmálskreppuna.

Þá benti Ingibjörg á að íslenskt efnahagslíf hvíldi ekki einungis á bönkunum heldur skilaði sjávarútvegur og álframleiðsla einnig miklu ásamt vaxandi ferðaþjónustu.

Ingibjörg benti á að fjárfestingar Íslendinga í Danmörku hefðu vakið mikla athygli í dönskum miðlum og ráða mætti af þeim að Íslendingar stæðu fyrir annarri hverri fjárfestingu erlendra aðila í landinu. Hið rétta væri að aðeins tvö prósent af fjárfestingu erlendra aðila í Danmörku kæmu frá Íslandi. Þarna væru á ferðinni dönsk félög með þúsundir manna í vinnu og nefndi hún Magasin, FIH bakann og Marel sem dæmi.

Ingibjörg benti einnig á að Moody´s hefði gefið íslensku bönkunum gott heilbrigðisvottorð og bent á að lausafjárstaða þeirra væri góð. Því væri lítil hætta á kerfistruflunum í bankageiranum. Ef til bankakreppu kæmi væru bæði ríkisstjórnin og Seðlabankinn vel í stakk búinn til að takast á við ástandið.

Ræðu utanríkisráðherr í heild sinni má nálgast hér.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×