Viðskipti innlent

Kaupþing frestar evruskráningu

Stjórn Kaupþings hefur ákveðið að fresta breytingu á starfrækslugjaldmiðli sínum úr krónu í evru fram til næstu áramóta. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu fyrirtækisins.

Þar segir einnig að miðað hafi verið við að bankinn myndi breyta starfrækslugjaldmiðli sínum í byrjun þessa árs enda hafi vægi evru í rekstri bankans aukist á undanförnum árum.

„Stjórnin er enn staðráðin í að breyta starfrækslugjaldmiðlinum í evrur til að tryggja að reikningar bankans gefi hverju sinni rétta og skýra mynd af fjárhagsstöðu samstæðunnar. Umsóknarferlið hefur hins vegar tekið lengri tíma en búist var við og nú þegar liðnir eru rúmlega tveir mánuðir af reikningsárinu yrði erfitt að breyta starfrækslugjaldmiðlinum miðað við 1. janúar 2008, einnig í ljósi óróleikans á mörkuðum," segir í tilkynningunni.

Stjórn bankans leggur fram tillögu á fyrir aðalfund, sem nú stendur yfir, þar sem gert er ráð fyrir að heimila stjórn að ákveða að hlutafé bankans verði skráð í evrum í stað íslenskra króna. Gert er ráð fyrir því að uppgjör hlutabréfa í gjaldmiðlum öðrum en íslenskum krónum verði mögulegt á Íslandi fyrir lok árs 2008. Stjórnin telur æskilegt að breyta starfrækslugjaldmiðlinum á sama tíma og hlutaféð er skráð í evrum og því sé breytingunni frestað og núverandi umsókn hjá stjórnvöldum dregin til baka.

Eins og kunnugt er lagðist Ársreikningskrá gegn því að Kaupþing fengi að gera upp í evrum en þá ákvörðun hafði Kaupþing kært til fjármálaráðherra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×