Viðskipti innlent

Hagnaður Landsvirkjunar jókst um 17,5 milljarða

MYND/Teitur

Hagnaður Landsvirkjunar á síðasta ári nam 28,5 milljörðum króna samkvæmt ársreikningi sem samþykktur var á fundi stjórnar fyrirtækisins í dag. Jókst hagnaðurinn um 17,5 milljarða króna á milli ára.

Fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar að heildareignir félagsins hafi í lok síðasta árs numið nærri 320 milljörðum króna og eigið fé nam nærri hundrað milljörðum króna. Það jókst um rúma 28 milljarða á árinu.

Rekstrartekjur numu nærri 23 milljörðum króna og jukust um nærri tvo milljarða milli ára. Auknar tekjur má að verulegu leyti rekja til sölu á rafmagni til Fjarðaáls sem hófst á árinu. Rekstrarkostnaður án afskrifta nam um 6,6 milljörðum króna en var um 6,4 milljarðar í fyrra.

Ársreikningur Landsvirkjunar er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla eins og þeir hafa verið staðfestir af Evrópusambandinu. Þetta er í fyrsta sinn sem fyrirtækið gerir ársreikning sinn með þeim hætti.

Samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum er fyrirtækinu skylt að ákvarða starfrækslugjaldmiðil sinn og er niðurstaðan sú að Bandaríkjadalur verður ráðandi mynt fyrirtækisins frá og með árinu 2008. Árið 2007 er því síðasta árið sem íslenska krónan er starfrækslugjaldmiðill Landsvirkjunar.

Horfur um rekstur Landsvirkjunar eru sagðar góðar fyrir þetta ár. Fljótsdalsstöð var tekin í notkun á árinu 2007 og munu tekjur af raforkusölu til stóriðju auka heildartekjur fyrirtækisins umtalsvert. Gengisþróun og gangvirðisbreytingar á innbyggðum afleiðum mun þó eftir sem áður ráða miklu um afkomu ársins, segir í tilkynningu Landsvirkjunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×