Innlent

24 metrar af stuðningsmönnum litaðs bensíns

Breki Logason skrifar
Atlantsolía stendur fyrir undirskriftarlistanum.
Atlantsolía stendur fyrir undirskriftarlistanum.

„Við erum bara að reima á okkur skóna og á leið þarna niðureftir," segir Hugi Hreiðarsson markaðsstjóri Atlantsolíu sem ætlar að afhenda Fjármálaráðuneytinu 24 metra langan undirskriftarlista til stuðnings sölu á lituðu bensíni í dag.

Fyritækið vill hefja sölu á lituðu bensíni en það yrðir ódýrara en annað bensín þar sem 32,95 krónu veggjald yrði fellt niður, enda bensínið ekki ætlað fyrir almennar bifreiðar. Hátt í fimm þúsund manns hafa skráð sig á listann sem hefur verið í gangi í 19 daga.

„Þetta gekk náttúrulega með ólíkindum enda höfum við ekki sent eina einustu auglýsingu frá okkur um málið. Þetta spurðist bara út og greinilegt að menn vilja sjá þetta gerast," segir Hugi.

Hann segir björgunarsveitarmenn, mótorkrossmenn og flugvélaeigendur vera stærsta hlutann en inn á milli séu auðvitað aðrir enda nýtist litað bensín m.a. á sláttuvélar, vélsleða, rafstöðvar og skemmtibáta.

Einungis vantar 30 undirskriftir svo listinn nái 5000 einstaklingum og reiknar Hugi með að fimmþúsundasti stuðningsmaðurinn skrái sig í dag. „Það er aldrei að vita nema sá fái fría áfyllingu hjá okkur."

Undirskriftarlistinn er prentaður á samhangandi pappír sem nær 24 metrum að sögn Huga en árangurinn kom forsvarsmönnum Atlantsolíu mjög á óvart.

Það verður Ingvi Már Pálsson, formaður nefndar sem vinnur að endurskoðun skattlagningar á eldsneyti sem tekur við listanum núna klukkan 11:00.

Hægt er að skrá sig á listann hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×