Viðskipti innlent

Evrópski þróunarbankinn fjárfestir í apótekum með Milestone

Karl Wernersson er stjórnarformaður Milestone.
Karl Wernersson er stjórnarformaður Milestone. MYND/GVA

Evrópski þróunarbankinn hefur keypt hlut í hollenska félaginu Pharma Investment sem er eignarhaldsfélag í eigu Milestone.

Hlutur bankans nemur 15 milljónum evra, um einum og hálfum milljarði króna. Pharma Investment á og rekur 180 apótek í fimm löndum, Króatíu, Makedoníu, Serbíu, Ungverjalandi og Rúmeníu. Markmið félagsins er eftir því sem segir í tilkynningu að verða leiðandi aðili í smásölu lyfja í Suðaustur-Evrópu og reka 500 apótek árið 2010.

Áætluð heildarvelta fyrirtækins í ár er 150 milljónir evra, um 15 milljarðar króna, og er stefnt að því að opna starfsemi í þremur nýjum löndum á þessu ári.

Rætur félagsins má rekja til reksturs íslensku lyfjakeðjunnar Lyfja & heilsu sem er dótturfélag Milestone. Uppbygging Pharma Investment í Suðaustur-Evrópu byggist því á þekkingu samstæðunnar á lyfja- og smásölumarkaðnum á Íslandi, segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×