Viðskipti innlent

Sigurður Kári vill verða ráðherra

Það gæti verið góður kostur fyrir Íslendinga að taka upp svissneskan franka, að mati Sigurðar Kára Kristjánssonar alþingismanns. „Ég hef reyndar verið hrifinn af því að taka upp annan gjaldmiðil eða skoða þá leið," sagði Sigurður Kári í samtali við Sindra Sindrason í „Í lok dags" á Vísi. „Það eru fleiri gjaldmiðlar til í heiminum heldur en evran. Ég nefni sem dæmi svissneskan franka. Það er sterkur gjaldmiðill sem sveiflast í takt við evruna og gæti verið valkostur," bætti Sigurður Kári við.

Þá sagði Sigurður Kári að ríki og sveitarfélög þyrftu að líta í eigin barm og draga úr kostnaði núna þegar slaki væri kominn á efnahagslífið og fyrirséð væri að tekjur ríkisins myndu dragast saman. „Ég veit að það er ekki vinsælt en þetta þarf að gera. Ríkið er ekkert öðruvísi en heimilin. Það getur ekki eytt um efni fram," sagði Sigurður Kári. Þá benti Sigurður Kári á að nauðsynlegt væri að stjórnvöld lækkuðu álögur á fyrirtæki til að örva hagkerfið og rétta af niðursveifluna.

Sigurður upplýsti jafnframt að hann hefði áhuga á að taka ráðherrasæti. „Já auðvitað, þeir sem að taka þátt í stjórnmálum og hafa einhvern metnað, að þeir vilja náttúrulega taka og fá aukna ábyrgð," sagði Sigurður Kári. Hann vildi þó ekki gefa upp sérstaklega hvaða ráðuneyti hann hefði mestan áhuga á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×