Viðskipti innlent

Krónan hindrar aðkomu erlendra langtímafjárfesta

MYND/BSRB

Eitt helsta vandamál íslensks fjármálamarkaðar er að ekki hefur tekist að laða að erlenda langtímafjárfesta. Þetta sagði Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþins, í erindi á málstofu BSRB um lífeyrismál.

Sigurður ræddi nokkuð um lífeyrismál og lífeyrissjóðina og sagðist halda að ekkert íslenskt fyrirtæki hefði farið í útrás án þess að lífeyrissjóðir hefðu verið þar meðal helstu fjárfesta. Eðli síns vegna væru lífeyrissjóðir mjög æskilegir fjárfestar fyrir fyrirtæki jafnvel þótt öllum væri heimilt að kaupa og selja fyrirtæki sem skráð er á markaði. „Fjárfestingarrammi lífeyrissjóða er mun lengri en flestra annarra fjárfesta þannig að eign þeirra skapar ákjósanlega kjölfestu í hluthafahópi og gerir fyrirtækjum kleift að horfa lengra fram á veg í ákvörðunum sínum," sagði Sigurður.

Eins og fyrr sagði Sigurður að eitt helsta vandamál íslensks fjármálamarkaðar væri að ekki hefði tekist að laða að erlenda langtímafjárfesta. Ein augljós hindrun í því væri íslenska krónan. Margir erlendir lífeyrissjóðir vildu gjarnan fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum og væru tilbúnir að taka þátt í þeirri áhættu en vildu síður taka á sig þá viðbótaráhættu sem feldist í gjaldmiðlinum.

Þarf ekki doktor til að sjá að viðskiptahalli og vaxtastig ganga ekki

Þá hefði markaðssetning Seðlabankans á krónunni einnig áhrif. „Seðlabankinn hefur hvatt til vaxtarmunaviðskipta með háum skammtímavöxtum. Það þarf engan doktor í hagfræði til að sjá að hvorki núverandi viðskiptahalli né vaxtastig gengur til langframa. Fyrr en síðar munu vextir lækka og gengi krónunnar leita jafnvægis. Þeir sem fjárfesta í krónubréfum vita því mæta vel að brátt mun verðgildi þeirra rýrna. Líkast til telja þeir sjálfum sér trú um að þegar það gerist geti þeir selt á undan öllum öðrum. Það veldur síðan því, að þegar krónan leitar jafnvægis verður að öllum líkindum mikið yfirskot. Það eru með öðrum orðum ekki langtímafjárfestar sem fjárfesta í krónubréfum, en ástæða er til að ætla að töluvert sé um spennufíkla. Það getur ekki talist heilbrigt," Sigurður.

Þá sagði Sigurður að með því að hækka vexti og styrkja gengi krónunnar hefði hann lækkað verð á innfluttri vöru og þannig breitt yfir innlenda verðbólgu að nokkru leyti. Gengið hefði því engin áhrif á vísitölu neysluverðs og Seðlabankinn hafi því þurft að styrkja gengi krónunnar sífellt meira til að sópa verðbólgunni undir teppið. „Þessi stefna getur ekki á nokkurn hátt talist sjálfbær enda er svo komið að hátt gengi gjaldmiðilsins ásamt eftirlátssamri ríkisfjármálastefnu hefur leitt til hæsta viðskiptahalla sem þekkst hefur á meðal ríkja OECD. En þrátt fyrir það er verðbólgan utan vikmarka Seðlabankans, og muna vart elstu menn hvenær hún var síðast innan þeirra," sagði Siguður.

Spurði Sigurður hvort ekki væri rétt að Seðlabankinn bakkaði út úr þessu öngstræti, ýtti verðbólgumarkmiði tímabundið að minnsta kosti til hliðar og þjóðin stöðvaði erlenda skuldasöfnun og byggi atvinnulífinu samkeppnishæf rekstrarskilyrði með heilbrigðara vaxtastigi og raungengi. „Einhvern tíma var sagt "Ef þú ert kominn ofan í holu, hættu þá að moka!""

Sigurður var formaður nefndar á vegum stjórnvalda sem átti að koma með tillögur að því hvernig Ísland gæti markað sér bás sem alþjóðleg fjármálamiðstöð. Í erindi sínu sagði hann að nefndin hefði skilað skýrslu en ekkert hefði gerst. „Hér höfum við reynsluna, menntunarstigið er hátt, fjármálaþjónusta greiðir há laun, afleidd störf eru mörg og eftirsóknarverð. Og staðsetning landsins er ekki hamlandi ólíkt því sem gerist í margs konar öðrum þjónustustörfum. Ég bind enn vonir við það, að stjórnvöld taki efni skýrslunnar til gaumgæfilegrar athugunar. Fjármagnið er kvikt í landamæralausu umhverfi og leitar eins og vatnið að hentugasta farveginum," sagði Sigurður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×