Viðskipti erlent

Stálkóngurinn selur sumarbústaðinn sinn

Lakshmi Mittal vill ekki búa við hliðina á fjölbýlishúsi.
Lakshmi Mittal vill ekki búa við hliðina á fjölbýlishúsi.

Lakshmi Mittal, indverski stáljöfurinn sem er einn ríkasti maður heims, hefur sett húsið sitt á sölu. Verðmiðinn er um 5,3 milljarðar króna en um er að ræða „sumarbústaðinn" hans í London en hann á annað hús í borginni sem er enn dýrara.

Ástæðan fyrir því að Mittal neyðist til að selja kofann er sú að byggingaverktaki hefur fengið leyfi til að byggja fjölbýlishús á næstu lóð og það hugnast Mittal illa. Húsið er á Bishop's Row í London sem í daglegu tali gengur undir nafninu Billionaire's Row. Fjölbýlishúsið er reyndar ekkert slor en þar eiga íbúðirnar að kosta frá einum milljarði og upp í einn og hálfan.

Mittal fór fremstur í flokki þegar íbúar götunnar reyndu að koma í veg fyrir að leyfi fengist til þess að breyta einni villunni í fjölbýlishús. Sú barátta bar ekki árangur og því hefur Mittal ákveðið að selja.

Þeim sem áhuga hafa á eigninni er bent á að hafa samband við Trevor Abrahmson, fasteignasala hjá Glentree Estates. Hann segist ekki í vafa um að auðvelt verði að selja húsið þar sem Bishop's Row sé vel þekkt staðsetning á meðal ríkustu manna heimsins og stöðutáknin gerist ekki stærri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×