Innlent

Vilja heilsuhótel á Vestfirði

Framtíðarlandið hélt ráðstefnu á Vestfjörum í vetur. Mynd úr safni.
Framtíðarlandið hélt ráðstefnu á Vestfjörum í vetur. Mynd úr safni.
Á Vestfjörðum gæti hugsanlega risið ákjósanlegt heilsuhæli sem hægt væri að kynna á erlendum vettvangi. Þetta var á meðal þeirra hugmynda sem ræddar voru á Vetrarþingi Framtíðarlandsins, sem haldin var fyrir jól. Tilgangur þingsins var að ræða möguleg atvinnutækifæri á Vestfjörðum og framtíðarhorfur þar. Rit með samantekt af þinginu kom út í vikunni.

Á þinginu var sú staðreynd rædd að milljónir fjársterkra aðila byggju við skerta heilsu. Á heilsuhælinu í Hveragerði væru biðlistar og viðbótin á Mývatni myndi ekki anna eftirspurn. Þvi væri tilvalið að virkja náttúrugæðin sem fyrir hendi væru á Íslandi, hreint loft, heitt vatn, hreint vatn, útivistarmöguleika og náttúrutengda afþreyingu. Þá væri hér vel menntuð heilbrigðisstétt sem myndi nýtast við nýtt heilsuhæli.

Ólafur Sveinn Jóhannesson, einn af aðstandendum ráðstefnunnar segir að sveitastjórn Reykhólahrepps hafi tekið málið upp. "Það var fenginn aðili sem hefur reynslu af rekstri heilsuhótels til að meta stöðuna," segir Ólafur. Hann segir að sá aðili hafi metið stöðuna sem svo að hvergi á Íslandi væri betri staður til að setja upp heilsuhótel. Þarna væri gnógt vatns, þang og leir. Auk þess væri bundið slitlag alla leiðina að Reykhólum og einungis tveggja og hálfs tíma akstur væri frá Reykjavík.

Ólafur sagði að frá því að þessir aðilar hefðu skoðað aðstæður við Reykhólasveit væri búið að skipta um sveitastjóra þar. Hann vissi því ekki hvernig málið stæði nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×