Viðskipti innlent

Frekari bið á vaxtalækkunum geti falið í sér mikinn fórnarkostnað

Ásgeir Jónsson er forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings.
Ásgeir Jónsson er forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings.
Greiningardeild Kaupþings segir að frekari bið á vaxtalækkunum hjá Seðlabankanum en til 10. apríl geti falið í sér mikinn fórnarkostnað. Í hálffimmfréttum Kaupþings er bent á að því lengur sem beðið sé með lækkun vaxta því meiri hætta sé á að vaxtalækkunarferilinn verði of brattur og það skapi hættu á gengisfalli og óstöðugleika í hagkerfinu.

Greiningardeild Kaupþings bendir á að verðbólgutölur í febrúar, 6,8 prósent, hafi verið yfir meðalspám greiningaraðila og telur Kaupþing að tólf mánaða verðbólga muni ná hámarki í næsta mánuði þegar áhrif skattalækkana fjara út. Ef litið sé til verðbólgu án áhrifa skattalækkana mælist hún nú 8,7 prósent.

Greiningardeilin segir fjóra þætti drífa áfram verðbólguna: áhrif útsöluloka, veikingu krónunnar, hækkandi heimsmarkaðsverði á hrávörum og vaxtahækkunum íbúðalána. „Seðlabankinn hefur lítil sem engin áhrif á flesta þessa þætti með vaxtastefnu sinni auk þess sem einn þeirra er í raun afleiðing af háum stýrivöxtum bankans. Greiningardeild gerir ráð fyrir að verðbólga næstu mánuði verði drifin af svipuðum þáttum þ.e. veikingu krónunnar, hækkandi hráefnaverði úti í heimi og áhrifa hækkandi vaxtakjara," segir greiningardeildin.

Þá segir í hálffimmfréttunum að tólf mánaða verðbólga hafi færst fjær markmiðum Seðlabankans síðustu mánuði. Undirliggjandi verðbólga í kerfinu sé níu prósent sem svipar til þess sem átti sér stað í ágúst 2006 þegar verðbólguskot gekk yfir í kjölfar gengisveikingar krónunnar.

„Hugsanlega gætir nú tregðu hjá Seðlabankanum til að lækka vexti á næsta vaxtaákvörðunarfundi þann 10.apríl n.k. enda stendur verðbólgan nokkuð frá markmiðum bankans. Hins vegar er það mat Greiningardeildar að frekari bið á vaxtalækkun gæti falið í sér of háan fórnarkostnað - því lengur sem beðið er með lækkun vaxta því meiri hætta er á því að vaxtalækkunarferillinn verði of brattur sem skapar hættu á gengisfalli og óstöðugleika í hagkerfinu," segir greiningardeild Kaupþings






Fleiri fréttir

Sjá meira


×