Viðskipti innlent

Mikill vandi hjá bönkum ef ekki tekst að afla tiltrúar erlendis

MYND/Vilhelm

Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins telja að mikill vandi blasi við íslensku bönkunum ef þeim tekst ekki að afla sér tiltrú erlendra markaðsaðila og ef ekkert breytist til hins betra á fjármálamörkuðum heimsins.

Það eru þingmennirnir Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson sem segja þetta í sameiginlegri grein í Morgunblaðinu í dag. Ef áðurnefnd atriði gangi ekki upp blasi við hagkerfinu að íslensku bönkunum gangi illa að afla þess fjármagns sem þeir þurfa vegna starfssemi sinnar á næsta ári.

Fjármögnun bankanna verði óheyrilega dýr eða í versta falli ómöguleg. Margt bendi til að fjármálafyrirtækin hafi farið helst til geyst á þeim tíma sem aðgangur að fjármagni á alþjóðlegum markaði var greiður og mikilvægt sé fyrir stjórnendur fjármálafyrirtækja að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni og hlutverki í stöðunni, sem upp er komin.

Þeir segja umræðu um inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evrunnar einungis flótta frá því verkefni, sem við stöndum nú frammi fyrir, enda taki slíkt nokkur ár. Til að bregðast við vilja þeir meðal annars efla Fjármálaeftirlitið og lækka skatta á fyrirtæki niður i 12 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×