Innlent

Fjármálaráðherra þarf að útskýra sölu á Baldri til Sæferða

Fjármálaráðherra þarf að útskýra af hverju ferjan Baldur var seld til Sæferða á 38 milljónir og seld þaðan til útlanda á 100 milljónir tveimur vikum síðar. Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður frjálslyndra, segir að salan sé óvenjuleg og skýra þurfi af hverju ráðuneytið auglýsti ekki söluna samkvæmt reglum árið 2006.

Fréttablaðið greinir frá því í dag að ríkisfjármál rjármálaráðuneytisins hafi selt Sæferðum ehf. Breiðarfjarðarferjuna Baldur fyrir tæpar 38 milljónir króna í lok janúar 2006. Salan á ferjunni hafi ekki verið auglýst samkvæmt meginreglum um sölu á ríkiseignum. Þá segir að í endurskoðun ríkisreiknings ársins 2006 gangi Ríkisendurskoðun út frá því að um tveimur vikum síðar hafi ferjan verið seld úr landi fyrir tæpar 100 milljónir króna og svo verið afskráð í lok mars sama árs.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður frjálslyndra, furðar sig á þessu og segir Sæferðir hafa grætt umtalsvert á sölunni. Hann segir að svo virðist sem ríkið hafi haft einhverjar hugmyndir um það að það væri hægt að endurselja skipið með hagnaði því að í samningi ríkisins við Sæferðir sé sett inn ákvæði um að ríkið fái 30 prósent af söluhagnaðinum í sinn hlut.

Kristinn spurði fjármálaráðherra um þetta mál í síðustu viku og fór fram á frekari upplýsingar um greiðsluskilmála og eiginfjárstöðu Sæferða. „Hvers vegna ákvað ríkið ekki að selja skipið strax til þeirra aðila sem vitað var að myndu borga svona hátt verð fyrir skipið í stað þess að að selja skipið á lágu verði og færa kaupandanum tugi milljóna í hagnað?" spyr Kristinn.

Hann segir óvenjulegt að salan hafi ekki verið auglýst. Það þarfnist skýringa. Það eigi auðvitað að auglýsa eignir ríkisins þegar eigi að selja þær þannig að það sé ljóst að allir viti að þær séu til sölu og ríkið fái bestu tilboð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×