Innlent

Annir hjá lögreglunni á Selfossi vegna innbrota

Lögreglan á Selfosi hafði í nógu að snúast í tengslum við þjófnaði og innbrot í umdæmi hennar í síðustu viku.

Þannig hafði lögregla afskipti af pari sem rændi fatnaði úr verslun Nóatúns á Selfossi. Parið fannst eftir skoðun eftirlitsmyndbanda og var handtekið og játaði á sig verknaðinn. Mál þess fer til ákæruvalds þar sem vænta má að ákæra verði gefin út.

Þá var lögreglunni tilkynnt um innbrot í íbúðarhús í Lyngbergi í Þorlákshöfn. Það átti sér stað á milli níu og fimm síðastliðinn þriðjudag. Þaðan var stolið eitthvað af skartgripum. Þá var tilkynnt um innbrot í Miðengi á Selfossi sama dag en þaðan var stolið nokkrum húslyklum, bíllyklum og bankaauðkennislyklum. Einn íbúi var staddur inni í herbergi hússins þegar þetta átti sér stað en varð hins vegar ekki var við þjófinn.

Við þetta má bæta að brotist var inn í sumarbústað í eigu Matvís í Grímsnesi og þaðan stolið sjónvarpsflatskjá og hljómflutningstækjum. Enn fremur var brotist inn í garðyrkjustöð við Heiðmörk í Hveragerði og þaðan stolið tveimur gróðurhúsalömpum.

Lögreglan á Selfossi biður alla þá sem veitt geta upplýsingar um óeðlilegar mannaferðir á þessum stöðum að hafa samband í síma 480-1010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×