Viðskipti innlent

VBS fjárfestingarbanki ætlar að sækja um viðskiptabankaleyfi

Á aðalfundi VBS fjárfestingarbanka í dag samþykktu hluthafar bankans heimild til að sótt verði um viðskiptabankaleyfi til Fjármálaeftirlits. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bankanum.

Þá var samþykkt að veita heimild til útgáfu nýs hlutafjár að upphæð 150 milljóna króna að nafnverði, meðal annars til þess að mæta fyrirhuguðum vexti og kaupum starfsmanna á bréfum í bankanum.

Jón Þórisson forstjóri VBS segist gera ráð fyrir að gengið verði frá umsókn næstu daga og þá taki við meðferð og afgreiðsla Fjármálaeftirlits. „Með viðskiptabankaleyfi fæst heimild til að taka á móti innlánum frá viðskiptavinum.

Eignastýring er hluti starfsemi VBS og við höfum hóp viðskiptavina sem hefur þörf fyrir víðtækari þjónustu en við getum veitt núna. Með viðskiptabankaleyfi getum við aukið umsvif okkar og eflt þjónustu enn frekar," segir Jón.

Á aðalfundinum var ný stjórn kjörin.

Páll Magnússon

Finnur Sveinbjörnsson

Símon Sigurpálsson

Gunnar Árnason

Ólafur Elísson

Finnur Sveinbjörnsson er nýr í stjórninni. Á stjórnarfundi að afloknum aðalfundi var Páll Magnússon kjörinn formaður.

VBS fjárfestingarbanki hf. skilaði 1.731 milljóna króna hagnaði fyrir skatta á árinu 2007 en það jafngildir 26,7% ávöxtun eigin fjár á árinu. Að teknu tilliti til skatta var hagnaðurinn 1.416 milljónir sem jafngildir 21,9% ávöxtun eigin fjár á ársgrundvelli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×