Viðskipti innlent

Jón Karl verður forstjóri JetX/Primera Air

Jón Karl Ólafsson verður áfram í flugrekstri.
Jón Karl Ólafsson verður áfram í flugrekstri. MYND/GVA

Jón Karl Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair, hefur verið ráðinn forstjóri JetX/Primera Air sem ferðaþjónustufyrirtækið Primera Travel Group rekur. Primera rekur meðal annars Heimsferðir og Terranova hér á landi.

Fram kemur í tilkynningu að Jón Karl taki við 3. mars næstkomandi og hann mun jafnframt taka sæti í framkvæmdastjórn Primera Travel Group og verður einn af lykilmönnum í stjórnendateymi félagsins.

Jóni Karli var sagt upp störfum sem forstjóri Icelandair í desember síðastliðnum eftir um þrjú ár í starfi og þá tók Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandic Group og formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, við starfinu.

Fram kemur í tilkynningu Primera Travel Group að Ingimar Ingimarsson, sem verið hefur forstjóri JetX/Primera Air, taki sæti stjórnarformanns í félaginu.

Flugfélagið er með sex flugvélar í rekstri og stefnir að því að reka 10-12 vélar á næsta ári. Flestar vélarnar sinna flugi fyrir dótturfyrirtæki Primera Travel Group, en félagið á ferðaskrifstofurnar Budget Travel á Írlandi, Heimsferðir og Terranova á Íslandi auk fimm ferðaskrifstofa annars staðar á Norðurlöndum.

„JetX/Primera Air hefur vaxið gríðarlega á síðustu 18 mánuðum og mun hefja rekstur tveggja nýrra véla í Dublin í maí, en það verður nýjasta starfsstöð félagsins. Félagið flýgur í dag frá Keflavík, Stokkhólmi, Gautaborg, Malmö, Oslo, Helsinki og Kaupmannahöfn," segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×