Innlent

Kennarar fá um 70 þúsund króna aukagreiðslu vegna manneklu

MYND/GVA

Kennarar og háskólamenntað starfsfólk í skólum borgarinnar fá samtals um 70 þúsund krónur í eingreiðslu vegna manneklu sem plagað hefur skólana í vetur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Þar segir að byrjað verði að ráðstafa þeirri aukafjárvetingu sem borgaryfirvöld hafa ákveðið að leggja til í samstarfsmannamálum í næstu viku. Alls var um að ræða 245 milljónir til hinna ýmsu sviða borgarinnar og fara 160 milljónir af því til menntasviðs. Þannig á að umbuna þeim starfsmönnum fjölmargra vinnustaða sem unnið hafa undir sérstaklega miklu álagi vegna manneklu á undanförnum mánuðum.

Kennarar og annað háskólamenntað starfsfólk fær 23 þúsund króna eingreiðslu í þrjú skipti og aðrir starfsmenn skóla fá 16 þúsund króna eingreiðslu í jafnmörg skipti. Mismunandi fjárhæðir til starfsmanna taka mið af launamun þessara hópa auk þess sem ábyrgð fyrri hópsins hefur verið meiri við að halda uppi kennslu. Skólastjórar og aðstoðarskólastjórar fá 40 þúsund króna eingreiðslu í eitt skipti, enda hafa þeir föst laun sem eiga að rúma hluta af þessu aukna álagi.

Á öðrum sviðum og skrifstofum verður fjármagnið nýtt til margvíslegra aðgerða í starfsmannamálum, einkum til að styrkja starfsanda, efla liðsheild og bæta starfsaðstæður, eins og segir í tilkynningu borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×