Viðskipti innlent

Kaupþing einn af helstu fjármögnunaraðilum Saxo

„Hann er annaðhvort fáfróður eða heimskur um Kaupþing, greinandi Saxo sem heldur því fram að Kaupþing og hinir íslensku bankarnir séu að verða gjaldþrota," segir Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings. Samkvæmt heimildum Markaðarins er Kaupþing einn af helstu fjármögnunaraðilum Saxo en Sigurður vildi þó ekki tjá sig eða staðfesta það.

Sigurður segir viðkomandi greiningaraðila augljóslega ekkert vita um Kaupþing og ekkert um efnahag landsins enda líkir hann honum við efnahag Simbabve þar sem 80 prósent þjóðarinnar býr við fátækt. Það eitt ætti að segja blaðamönnum að athuga heimildir sínar betur, það taki jú ekki nema mínútu að ganga í skugga um að þetta sé þvæla, segir Sigurður og bætir við að ef lítil fjárfestingafélög hér á landi færu að skrifa um Danske Bank myndu menn athuga hvaða félög þetta væru áður en menn færu með það í fréttir.

Hvers vegna greinandinn komst að þessari niðurstöðu, segist Sigurður ómögulega geta skiljað. Þegar Sigurður er spurður að því hvort umfjöllunin hafi skaðað Kaupþing segir hann að það sé aðallega þreytandi að þurfa að svara fyrir svona þvælu hvað eftir annað.

Það sé nú svo að þó svo Moody´s komi til með að lækka einkunnir bankanna úr AAA niður í 2A eða jafnvel 1A, sé það samt sem áður frábær einkunn. Hann minnir á að Kaupþing sé með 13 milljarða í lausafé, aðeins 3 milljarða þurfi að endurfjármagna og að eiginfjárhlutfall bankans sé upp á 11,8%. Því til viðbótar var bankinn með ávöxtun á eigið fé upp á 23% og að 2008 líti út fyrir að verða prýðilegt ár, þó vissulega verði það krefjandi. Samkvæmt heimildum Markaðarins er Kaupþing einn af helstu fjármögnunaraðilum Saxo og yfirmenn bankans því án efa ekki glaðir í dag með sinn mann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×