Viðskipti innlent

Baldur Guðnason hættir hjá Eimskip

Baldur Guðnason, forstjóri Hf. Eimskipafélags Íslands hefur ákveðið að láta af störfum hjá félaginu að eigin ósk og hættir störfum hjá félaginu frá og með deginum í dag. Stefán Ágúst Magnússon, sem verið hefur aðstoðarforstjóri félagsins undanfarin ár, mun sinna starfi forstjóra þar til annað verður tilkynnt.

 

„Þegar ég hóf störf hjá Eimskip setti félagið sér skýr markmið, þ.e. að verða leiðandi flutningsaðili í Evrópu og að verða leiðandi aðili í geymslu á hitastýrðum afurðum á alþjóðavísu," segir Baldur Guðnason í tilkynningu um málið. "Þessum markmiðum hefur nú verið náð og því góður tímapunktur að breyta til og takast á við önnur verkefni. Fyrirtækið er í höndunum á frábærum stjórnendum og þakka ég þeim og öllu samstarfsfólki mínu um allan heim fyrir ánægjulegt samstarf á undanförnum árum."

„Fyrir hönd stjórnar Eimskips þakka ég Baldri vel unnin störf í þágu hluthafa Eimskips á undanförnum árum. Undir stjórn Baldurs hefur félagið tífaldað veltu sína," segir Sindri Sindrason, stjórnarformaður Eimskips "Áætluð velta á árinu 2008 er tæplega 190 milljarðar króna eða 1.900 milljónir evra og arðsemi félagsins hefur aukist verulega á undanförnum árum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×