Viðskipti innlent

Minnsta atvinnuleysi í 20 ár

Í nýbirtum tölum Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi í síðasta mánuði kemur fram að hlutfallslegt atvinnuleysi reiknast 1,1% af vinnuafli. Þetta er minnsta atvinnuleysi í þessum mánuði í 20 ár.

Greint er frá þessu í vefriti fjármálaráðuneytisins. Þegar tekið hefur verið tillit til árstíðarleiðréttingar er atvinnuleysishlutfallið 0,9% og stendur það óbreytt milli mánaða.

Samtals fjölgaði atvinnulausum á skrá um 208 í mánuðinum og helmingur þeirrar fjölgunar var á höfuðborgarsvæðinu. Atvinnulausum fjölgaði mest utan höfuðborgarsvæðisins í Fjarðabyggð, Ölfusi og Vestmannaeyjum en þeim fækkaði í Fjallabyggð og Norðurþingi.

Um það bil 300 manns komu nýir inn á atvinnuleysisskrá í janúar sem er fjölgun frá fyrra mánuði. Enda þótt fjölgun í þessum hópi sé undanfari vaxandi atvinnuleysis er fjöldi þeirra sem koma nýir inn á atvinnuleysisskrá ennþá lítill.

Fjölgað hefur í hópi þeirra sem verið hafa á skránni 4-8 vikur, minna í hópi þeirra sem verið hafa á skrá frá 2-6 mánuði á meðan ennþá fækkar í hópi þeirra sem hafa verið án atvinnu lengur en hálft ár.

Hingað flyst enn erlent vinnuafl og fjöldi á vegum starfsmannaleiga er meiri en hann var í síðasta mánuði. Bendir þetta til þess að enn ríki mikil spenna á vinnumarkaði. Í nýrri þjóðhagsspá er hlutfallslegu atvinnuleysi spáð að aukast nokkuð í ár. Nýliðin þróun bendir til að sú aukning verði minni en þar er gert ráð fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×