Viðskipti innlent

Menn hefðu mátt vanda sig betur

Jón Sigurðsson
Jón Sigurðsson

„Síðustu vikur hafa vissulega verið erfiðar en við verðum að vinna vel úr okkar spilum og halda áfram," sagði Jón Sigurðsson forstjóri FL Group í hádegisviðtalinu á Stöð 2.

Jón benti einnig á að eigið fé félagsins væri mjög sterkt eða um 156 milljarðar og eigiðfjárhlutfallið í kringum 37%. Aðspurður hvað væri framundan sagði hann verið væri að skoða eignarsafn félagsins.

„Við erum með þrjár kjarnaeignir, Glitni, TM og Landic Properties. Við ætlum að halda áfram að styðja við fjárfestingar eins og Refresco og halda áfram að minnka markaðsáhættu og selja eignir sem eru ekki strategískar fyrir félagið," sagði Jón.

FL Group tapaði um 67 milljörðum á síðasta ári og aðspurður hvort menn hefðu ekki átt að fara varlegra í fjárfestingar sagði Jón. „Eftirá að hyggja hefðu menn kannski átt að vanda sig betur og vinna betur úr þeim stöðum sem voru til staðar."

Í lokin var hann spurður út í ákvörðun Seðlabankans síðan í morgun um að lækka ekki stýrivexti. „Að hluta til eru þetta ákveðin vonbrigði þar sem ég held að það sé kominn tími á breytingar á vaxtastefnu. Ég held að það muni hægjast mun hraðar en menn gera sér grein fyrir og því er mikilvægt að bregðast við því með ábyrgjum hætti."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×